Nám og fræðsla

Læknaritaranám

Frá haustinu 1992 hefur Fjölbrautaskólinn við Ármúla einn skóla séð um menntun læknaritara. Námið veitir lögvernduð réttindi til starfsheitisins læknaritari, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðuneytisins.

Læknaritaranám er viðurkennt starfsnám sem lýkur með stúdentsprófi af þeirri braut. Námið er sett upp sem 7 anna nám og eru námslok á 3. hæfniþrepi. Námið er að stórum hluta sameiginlegt með bóknámsbrautum og öðrum starfsmenntabrautum á heilbrigðissviði, en þriðjungur þess er sérhæfður að læknaritarabraut. Nám í sérgreinum brautarinnar er að mestu bóklegt nám í skóla, en starfsþjálfun fer fram utan skóla.

Markmið læknaritaranáms er að búa nemendur undir fjölbreytt störf læknaritara, hvort sem er á heilbrigðisstofnunum eða hjá fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu. Í náminu er lögð rík áhersla á að þjálfa nákvæmni og sjálfstæði í vinnubrögðum. Starfsheiti læknaritara er lögverndað.

Skilyrði til innritunar í nám á læknaritarabraut er grunnskólapróf. Til að hefja nám á 2. hæfniþrepi í kjarnagreinum (íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku), þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga í þessum greinum.

Sjá nánar um læknaritaranámið hér á vef Fjölbrautaskólans í Ármúla.